Ég vil hámarka möguleikana mína og um leið hjálpa þér að gera slíkt hið sama.

Stutt samantekt

Vinnan mín er að mestu leyti byggð á sálfræði, persónulegri reynslu og stöðugrar þróunar. Ég vinn sjálfstætt við þjálfunarsálfræði og við að halda fyrirlestra. Ég vinn með fjölbreyttum einstaklingum og hópum við persónuleg-, vinnu- og íþróttatengd markmið. Ég er með BSc í sálfræði og er í mastersnámi í jákvæðri- og þjálfunarsálfræði. Ásamt því hef ég mikla reynslu úr íþróttum. Ég hef meðal annars haldið fyrirlestra fyrir Origo, Sýn, Icepharma, Arctic adventures, Unicef, Fit & Run expo ásamt ýmsar félagsmiðstöðvar, hópa, stofnanir og íþróttafélög.

Afhverju ég geri það sem ég geri

Ég upplifði svokallað aha augnablik þegar ég var 17 ára gamall B-liðsmaður í fótbolta. Ég var að horfa á A-liðið keppa og ég hugsaði með mér: „Vá hvað mig langar að vera í þessu liði.“ Á þessu augnabliki byrjaði minn persónulegi vöxtur. Ég fattaði að það var í mínum höndum að uppfylla það sem mig langaði til að gera í lífinu.

Ég byrjaði að æfa aukalega, tók mataræðið í gegn og hugsaði betur um líkamlegu heilsuna. Loks kom þessi svakalegi áhugi á andlegri heilsu og allt sem tengist persónulegri þróun. Jákvæð-, tilvistarleg- og þjálfunarsálfræði passaði því afar vel við mig þar sem ég elska að hjálpa fólki að vaxa, blómstra og hugsa. Ég fæ virkilega vellíðan út úr því að hjálpa öðru fólki að líta öðruvísi á tilveruna, ná sínum markmiðum og að þróa hugrekki til að lifa fullnægjandi lífi.

Ég er á því að hamingja sé afleiðing okkar gjörða og hugsana en ekki eitthvað sem við verðum að finna eða eigum að leitast eftir. Ég frekar á því að við eigum að stefna að því að lifa eins merkingarfullu lífi og hægt er. Hamingja og árangur er samt eitthvað sem fólk þarf að skilgreina fyrir sjálft sig. Þú ert þinn besti sérfræðingur. Það sem virkar fyrir mig virkar ekki endilega fyrir þig. Ég er því ekki að fara gefa þér nein svör þar sem ég trúi að allir þurfi að finna sín eigin svör. Ég er alls ekki fullkominn og ég þarf að takast á við sömu erfiðleikana í tilverunni eins og allir aðrir.

Það sem ég mun gera er að hjálpa þér að skoða þínar aðstæður, þitt viðhorf og þína heimsýn í nýju ljósi. Ég er krefjandi og ég tel að það sé mikilvægt að fólk átti sig á hvað er að gerast bæði innra með sér og fyrir utan sig og hvernig þessir þættir spila saman. Með þjálfunarsálfræði og fyrirlestrum get ég breytt lífum til betri vegar. Stór kostur við það er að ég nýt þess í botn. Til að taka þetta allt saman í einni einfaldri setningu: Tilgangurinn minn er að hámarka möguleikana mína og í leiðinni að hjálpa þér að gera slíkt hið sama.