beggiolafs200px.jpg
Aldrei hætta að læra, því lífið hættir aldrei að kenna

Ég heiti Bergsveinn Ólafsson, kallaður Beggi og ég er á leiðangri að verða besta útgáfan af sjálfum mér. Ég fjalla um viðfangsefni sem hjálpa einstaklingum að efla líkamlega og andlega heilsu, að ná markmiðum og að lifa lífinu eins fullnægjandi og mögulegt er. 

Frá gamla Begga í nýja Begga

Gamli Beggi var lélegur námsmaður, B-liðsmaður í fótbolta og hafði enga vitneskju um almenna heilsu. Ég man eftir augnablikinu þar sem ég ákvað að láta eitthvað verða úr mér. Ég var að horfa á A-liðið keppa í öðrum flokki og ég hugsaði mér mér: „Vá hvað mig langar að vera í þessu liði“. 

Síðan á því augnabliki hef ég verið að læra af lífinu og bæta mig sem einstakling, hægt og bítandi. Strax eftir þennan leik byrjaði ég að æfa aukalega. Ég fór beint heim, setti lóð í kringum öklanna og fór út að hlaupa. Sennilega með því heimskulegra sem þú getur gert í sambandi við skrokkinn á þér en sú frábæra hugsun að æfa aukalega var komin. 

 Með reynslunni síðustu ár hef ég lært mikið inn á þætti eins og mataræði, æfingar, líkamlega- og andlega heilsu. Þessi þekking kom ekki á einum degi, þetta hefur verið langt og lærdómsríkt ferli þar sem ég gerði mikið af mistökum, einfaldlega út af því að ég vissi ekki betur.

Ég var sennilega í ofþjálfun þegar ég reif liðþófa árið 2013. Þegar ég byrjaði að taka mataræðið í gegn þá hélt ég að allt sem innihélt kjúkling væri hollt, sama þótt að 5% af réttinum hafi verið unnir kjúklingastrimlar og restin hafi verið brauð og sósa. Ég var duglegur við að nýta hvert tækifæri til þess að fá mér í glas. Ég hafði ekki hugmynd hvað andleg heilsa var. Ég svaf oft á tíðum í tímum í menntaskóla. Ég hætti eftir hálfa önn þegar ég byrjaði fyrst í háskólanámi. 

Ég er þakklátur fyrir öll þessi mistök, þau voru lærdómsrík og gera mig af manninum sem ég er í dag. Ég er langt í frá fullkominn og er ennþá að læra helling af hlutum, sem er frábært því ég er á því að maður sé alltaf að læra af reynslunni í gegnum allt lífið.

Ég rétt slefaði í gegnum menntaskóla en í dag er ég útskrifaður með BSc gráðu í sálfræði og er í mastersnámi í jákvæðri sálfræði og þjálfunarsálfræði. Ég var í B-liði í öðrum flokk en í dag hef ég orðið Íslandsmeistari. Ég var talsmaður unnra kjötvara og mjólkurvara en í dag borða ég einungis plöntufæði. 

Þessi síða er fyrir fólk sem vill koma með mér í þann leiðangur að verða besta útgáfan af sjálfum sér. Komið með mér!

Ég reyni að vera virkur á instagram, endilega kíkið á mig þar: @beggiolafs