Grænn ofurhræringur

Ég fæ mér allavega líter af hræring á hverjum degi. Ég hef ófáum sinnum verið spurður hvað ég set í hann og því langar mér að deila því með ykkur hér. 

Hræringur er frábær leið til að koma grænu stöffi í mataræðið þitt og því er grunnurinn á mínum hræringi grænn. Ég vil hafa hræringinn minn háan í kaloríum en hversu mikið ég læt í hann hverju sinni fer eftir æfinga- og leikjaálagi. Ef það er þung æfingartörn eða margir leikir í röð þá reyni ég að hafa hann kaloríu meiri en þegar það er venjulegt álag. 

Ástæðan fyrir að þessi hræringur er hluti af mínu mataræði á hverjum degi er að hann er pakkaður af næringu og gefur góða orku út daginn og fyrir æfingar. Hann er líka frábær strax eftir æfingar og leiki fyrir endurheimt þar sem það er mikilvægt að innbyrða mat sem er hár í prótein, fylla glýkógen birðir líkamans og ná réttu vökva stigi. Hann mun hjálpa til við að flýta fyrir endurheimt vöðva, endurnýja orkubirgðir og að fá líkamann í jafnvægi. Með því að innbyrða þennan hræring eftir æfingar og leiki ertu líklegri til að jafna þig fyrr og fá sem mest út úr æfingunni sem þú tekur daginn eftir. 

Ég bý alltaf til tvo lítra í einu, þar sem ég drekk hálfan líter á morgnanna og hálfan líter eftir æfingar. Ég á þá líter af grænu sem ég drekk daginn eftir. Hinsvegar, ef það er mikið álag, á ég það til að drekka tvo lítra á einum degi. 

Þessi uppskrift hefur virkað vel fyrir mig en það þýðir ekki að hún henti þér vel. Ef þú ert að halda kaloríum í lágmarki þá mæli ég með að láta minna af bönunum, avacodo, möndlusmjöri og fræjum. Það kemur fyrir að ég eigi ekki öll þessi innihaldsefni og þá vinn ég með hluti sem ég á til í ísskápnum. Það er ekkert heilagt í þessu þannig ekki vera stressa þig á því ef það vantar einhver innihaldsefni. Endilega prófaðu þig áfram og finndu þinn eigin hræring!

Uppskriftin af hræringnum er hér að neðan. Þetta fer allt rakleiðis í blandarann.

 • 150gr. grænkál
 • 3-4 handfylli spínat
 • 1/2 líter kókosvatn
 • 4 bananar
 • 1 paprika
 • 1 appelsína
 • 1 avacodo
 • Turmerik rót
 • Engifer rót
 • 3-5 matskeiðar hampfræ, chiafræ og hörfræ
 • 1-2 matskeiðar Maca powder
 • 1/2 til 1 matskeið möndlusmjör
 • 2 teskeiðar af Green Phytofoods frá Now
 • 1-2 teskeið kanill
 • 1 bolli frosin bláber
 • Dass af vatni