Gaur, ertu ekki vegan? Hvernig getur þú verið svona massaður?

Ég borða einungis plöntumiðaða fæðu, sem þýðir að ég borða ekki dýr né dýraafurðir. Ég á erfitt með að skilgreina mig sem vegan, þar sem ég fell ekki alveg undir þá skilgreiningu en það er önnur saga sem ég segi ykkur síðar.  Ég er líka knattspyrnumaður, sem þýðir að ég æfi vel og reglulega, með misjöfnum áherslum. 

Það er almenn trú að íþróttamaður og plöntumiðað fæði fari ekki vel saman. Það er þvæla. Hinsvegar skil ég alla þá sem halda því fram, þar sem ég var einu sinni þarna megin við borðið. Mér fannst það bara óhugsandi að borða einungis grænmeti og vera íþróttamaður. Ég tel að fordómar byggi á fáfræði og ég hafði fordóma fyrir fólki sem borðaði ekki dýr né dýraafurðir, einfaldlega út af því að ég vissi ekki betur.

Það líður varla dagur hjá án þess að ég sé spurður: En hvaðan færð þú prótein? Ef ég fengi 100 krónur fyrir hvert skipti sem ég fengi þessa spurningu þá ætti ég sennilega sæmilegt hús á Arnarnesinu.

Í staðinn fyrir að móðgast og fara í vörn við þessari spurningu, eins og getur verið vinsælt af fólki sem borðar hvorki dýr né dýraafurðir, þá tek ég spurningunni opnum örmum, sýni henni áhuga og reyni að svara eins vel og ég get.

Okkur hefur verið kennt að kjöt og mjólkurvörur sé eini maturinn sem inniheldur prótein. Skilaboðin sem hafa verið send til okkar í gegnum tíðina eru þau að það sé ekki hægt að vera íþróttamaður án þess að borða kjöt eða mjólkurvörur. Þessi skilaboð hafa komið frá stórum fyrirtækjum sem hafa eytt háum fjárhæðum í að sannfæra samfélagið að við þurfum þeirra vörur til þess að halda lífi. 

Ég fékk hugmynd að þessari færslu þegar ég var í sundi fyrir nokkrum vikum. Þar kom ungur drengur að mér, leit á skrokkinn á mér og spurði: Gaur, ertu ekki vegan? Hvernig getur þú verið svona massaður? Til að halda því til haga þá er ég nú ekkert vöðvafjall. Hinsvegar held ég að það sé algengt að fólk haldi að þeir sem borði ekki dýr né dýraafurðir séu mjóir eða vöðvalitlir en þar er ekkert samasemmerki á milli.

Í viðhaldi og uppbyggingu vöðva skiptir inntaka próteins gríðarlega miklu máli og það er algeng mýta að það sé ekki hægt að fá nóg prótein úr plöntufæði. Prótein samanstendur af 20 amínósýrum. Líkaminn býr til 11 þeirra sjálfur en við fáum 9 amínósýrur úr mat. Þú getur fundið þessar 9 amínósýrur í kornvörum, hnetum, möndlum, kinóa, fræjum, grænmeti, tófú og baunum svo eitthvað sé nefnt. 

Einungis ein af hverjum tíu kaloríum sem við borðum þarf að koma frá próteini og viðmiðið fyrir íþróttamenn er ekki mikið meira. Samkvæmt Reccomended Daily Allowance (RDA) þá er mælt með að fólk borði 0.8 gr af próteini á hvert kílógram. 

Gefum okkur það, þar sem ég er íþróttamaður sem æfir þokkalega stíft, að ég þurfi 1,5 grömm af próteini á hvert kílógram. Þar sem ég er 80 kg, þá myndi ég þurfa 80 X 1,5 = 120 grömm af próteini á dag. Með því að innbyrða minn daglega hræring í morgunmat og eftir æfingar, hummus/möndlusmjör/hnetur/brokkolí í millimál, Gló skálina í hádegismat og burrito með svörtum baunum og tófu í kvöldmat fer ég létt með því að ná þessu próteinmagni. Ef mataræðið mitt yfir daginn er úr fjölbreyttu plöntufæði þá er nánast ómögulegt fyrir mig að borða of lítið af próteini. Hinsvegar, ef ég hef verið lélegur í próteini yfir daginn, þá á ég það til að fá mér Rav Rew Glo hnetu/prótein stykki, hamp prótein frá Sollu eða Sun Warrior prótein

Ég er samt ekki á þeirri skoðun að því meira prótein, því betra. Margir innbyrða tvöfalt ef ekki þrefalt meira prótein en mælt er með. Að borða of mikið af próteini getur orðið til þess að líkaminn breytir próteininu í fitu sem geymist í líkamanum. Auk þess hafa rannsóknir sýnt að of mikil prótein inntaka frá dýrum eða dýraafurðum yfir lengri tíma getur verið skaðleg. Það eykur líkurnar að fá ýmsa sjúkdóma eins og til dæmis beinþynningu, krabbamein, nýrnasjúkdóma og hjartasjúkdóma.

Ef þú ert ekki ennþá sannfærður um plöntuprótein þá langar mig til að benda þér á að stærstu og sterkustu dýr í heimi - fílar, nashyrningar, flóðhestar og górillur eru grasætur. Enginn spyr hvaðan þau fá prótein, svo slepptu steikinni og komdu með mér í svartbaunaborgara.

Þar að auki eru fjölmargir sterkir og massaðir íþróttamenn sem þurfa ekki kjöt eða mjólkurvörur til að ná sínum árangri. Sem dæmi má nefna kraftlyftingarmanninn Patrik Baboumian, líkamlega undrið Frank Medrano, vaxtaræktarmennina Torre Washington og Jim Morris, fyrrum MMA bardagakappann Mac Dansig og fyrrum NFL varnartröllið David Carter.

Þó svo að það sé mikið álag á skrokknum mínum, þar sem ég æfi 10-16 tíma á viku, þá hefur plöntufæðið verið mín orka síðustu tvö ár og ég hef ekki verið í vandræðum með að byggja upp vöðva eða orðið fyrir vöðvaniðurbroti. Ef þú ert að velta því fyrir þér að gerast grænkeri en ert smeyk/ur við prótein inntöku, ekki vera það, plöntur innihalda nóg af próteini!

Bið að heilsa ykkur, Beggi Ólafs